Nýjast á Local Suðurnes

Aðskilja akstursstefnur á hluta Grindavíkurvegar í sumar

Fyrsta áfanga framkvæmda við Grindavíkurveg er lokið, en um er að ræða framkvæmdir við breikkun við enda vegar við Bláa Lónið og við Seltjörn. Búið er að setja vegrið út í jaðrana og allt klárt til að fara í næsta áfanga, að aðskilja akstursstefnur. Sá áfangi er miðjan, eða leiðin á milli Seltjarnar og afleggjarans að Bláa Lóninu, þar verður mesta breikkunin og kaflar til framúraksturs.

Á fundi bæjarstjóra Grindavíkurbæjar og sviðsstjóra skipulagssviðs með Vegagerðinni kom fram að kostnaður við þær framkvæmdir sem nú hafa verið gerðar fór fram úr áætlun, en forsvarsmenn sveitarfélagsins voru þó fullvissaðir um að búið væri að fullfjármagna verkefnið og að framkvæmdum yrði haldið áfram.

Líkur eru á að útboð til framkvæmda seinni áfanga verði í mars eða apríl og er stefnt á að klára framkvæmdir næsta vetur.