Nýjast á Local Suðurnes

Vinnuhópur um framtíðarsýn í leikskólamálum í Sandgerði skilar skýrslu

Síðastliðið haust skipaði bæjarráð Sandgerðisbæjar vinnuhóp um framtíðarsýn í leikskólamálum. Í erindisbréfi fyrir vinnu hópsins kemur fram að honum var meðal annars falið að skoða eftirfarandi þætti, að fara yfir og leggja mat á þróun nemendafjölda til framtíðar, að fara yfir og meta núverandi húsnæði leikskólans og gera tillögur um húsnæðismál skólans til framtíðar, að fara yfir og meta samstarf Sandgerðisbæjar við Hjalla ehf. um rekstur skólans m.a. með gerð könnunar, og gera tillögur um rekstrarfyrirkomulag til framtíðar.

Hópurinn hefur nú skilað skýrslu með tillögum og hafa þær verið afgreiddar í bæjarráði og fræðsluráði. Í skýrslu hópsins koma fram fjölmargar tillögur, meðal annars að skoðað verði hvort Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður séu reiðubúin til samstarfs í leikskólamálum. Markmiðið væri að auka val foreldra um uppeldisstefnu og að foreldrar geti sótt um leikskólapláss fyrir börnin sín í því sveitarfélagi sem best hentar með tilliti til atvinnu.

Bæjarráð afgreiddi tillögurnar þar sem meðal annars var samþykkt tillaga um að framlengja samningi við Hjallastefnuna ehf. um rekstur Sólborgar um tvö ár eða til 1. ágúst 2017. Tillögu um mögulegan flutning á Skerjaborg á lóð Sólborgar var vísað til skoðunar hjá sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingasviðs í samstarfi við stjórnendur Hjallastefnunar ehf.

Auk þess var tillögu um hækkun á niðurgreiðslum vegna dagvistunar barna var vísað til skoðunar við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2016.

Skýrslu vinnuhópsins má finna hér.