Nýjast á Local Suðurnes

Félag í jafnri eigu athafnamanns og framkvæmdastjóra Kadeco sýslar með eignir á Ásbrú

Athafnamaðurinn Sverrir Sverrisson og framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, Kjartan Eiríksson, hafa sett á stofn fyrirtækið Airport City ehf. Fyrirtækið er stofnað í lok árs 2016, nokkrum vikum áður en gengið var frá sölu á síðustu eignum Kadeco.

Fyrirtækið er með heimilisfesti á heimili Kjartans og er tilgangur þess meðal annars rekstur og útleiga fasteigna samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Stjórnarmenn í hinu nýja fyrirtæki eru þeir Kjartan og Sverrir, en þeir eru jafnframt einu eigendur þess, skráðir fyrir 50% hlut hvor.  Sverrir er skráður formaður stjórnar og Kjartan framkvæmdastjóri, sem fer með daglegan rekstur fyrirtækisins. Athygli vekur að stofngögn fyrirtækisins, sem Suðurnes.net hefur undir höndum, eru vottuð af starfsmönnum Kadeco.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net hefur fyrirtækið hafið rekstur á gamla varnarsvæðinu og rekur þar nokkrar fasteignir. Fyrirtækið hefur ekki átt viðskipti við Kadeco að sögn Sigurðar Kára Kristjánssonar, stjórnarformanns þróunarfélagsins.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér í tilefni fyrirspurna þinna þá liggur fyrir að Kadeco hefur aldrei átt í fasteignaviðskiptum við félagið Airport City ehf. og ekki selt því félagi neinar fasteignir.“ Sagði Sigurður Kári.

„Aðkoma félagsins að þeim kaupsamningum [innsk. Blm.: við önnur fyrirtæki en Kadeco] er því engin, enda eru þeir gerðir á milli tveggja lögaðila sem eru Kadeco óviðkomandi.“ Sagði Sigurður Kári.

Umfjöllun Suðurnes.net á dögunum um kaup fyrirtækis í eigu Sverris og dóttur hans, Sonju Sverrisdóttur, Þórshamars ehf., á um 1.300 fermetra iðnaðarhúsnæði við Funatröð á Ásbrú, vakti mikla athygli, en kaupverðið var rétt rúmar 25.000 krónur fermeterinn, eða 35 milljónir króna í lok árs 2015. Eigninni fylgir tæplega 8.000 fermetra lóð. Húsnæðið var auglýst til sölu á tæplega 80 milljónir króna, fljótlega eftir kaupin, og selt, því má gera ráð fyrir að feðginin hafi hagnast töluvert á þessum viðskiptum við Kadeco. Meðalverð á fasteignum í öðrum viðskiptum Kadeco hefur verið um 60.000 krónur fermeterinn, en þá er, í flestum tilfellum, um að ræða milljarða viðskipti með eignir á vegum þróunarfélagsins.

Funatröð 3 – Félag í eigu athafnamannsins Sverris Sverrissonar gerði góðan samning við Kadeco – Mynd: Google maps.

Boðuðu til auka stjórnarfundar

Stjórn Kadeco boðaði til aukafundar, sem haldinn var síðastliðinn mánudag vegna málsins og sagði Sigurður Kári að á fundinum hafi framkvæmdastjórinn tilkynnt stjórn félagsins um stofnun Airport City ehf., og aðild sína að því, tæplega hálfu ári eftir stofnun þess. Sigurður Kári sagði jafnframt að málið yrði tekið fyrir á næsta stjórnarfundi Kadeco.

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, er einkahlutafélag í 100% eigu Íslenska ríkisins og heyrir starfsemi þess undir Fjármálaráðuneytið. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Gylfi Ólafsson sagði í samtali við Suðurnes.net að ráðuneytinu hafi ekki verið tilkynnt um umrædd tengsl, enda væri Kadeco hlutafélag og stjórn þess héldi utan um reksturinn. Gylfi sagði jafnframt að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins giltu ekki um hlutafélög í eigu ríkisins, en í þeim lögum er skýrt tekið fram að ekki sé ætlast til að starfsmenn stofnana á þess vegum standi í eigin rekstri.

Sigurður Kári sagði að stjórnendur og stjórn Kadeco færu eftir lögum um einkahlutafélög í störfum sínum.

 „Um störf, ábyrgð, réttindi og skyldur stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félagsins fer skv. lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994.  Eftir þeim lögum fara framangreindir í sínum störfum.“ Sagði Sigurður Kári.

Nafnið engin tilviljun

Nafn fyrirtækisins, Airport City ehf., er líkast til engin tilviljun, en Kjartan hefur undanfarin misseri verið talsmaður þess að Kadeco taki þátt í, eða leiði þróunarverkefni í kringum Keflavíkurflugvöll, Aerotropolis.

„Með mark­vissri upp­bygg­ingu má skapa mik­il verðmæti úr landi við flug­völl­inn,“ Sagði Kjartan við Morgunblaðið í febrúar síðastliðnum, þegar síðustu eignir Kadeco voru seldar.

„Þetta eru þó ekki bara ein­hverj­ar hug­mynd­ir held­ur er þetta sá raun­veru­leiki sem blas­ir við þegar skoðaðir eru flug­vell­ir er­lend­is sem hafa haft pláss til að vaxa á und­an­förn­um ára­tug­um,“ sagði Kjart­an.

Lítill áhugi virðist hins vegar vera á áframhaldandi starsemi Kadeco innan ríkisstjórnarinnar, en fram kom í umræðum á Alþingi á dögunum að Benedikt Jóhannesson, forsætisráðherra, hafi hvorki verið í sambandi við forsvarsmenn Kadeco, né hafi hann myndað sér skoðun á áframhaldandi starfsemi þróunarfélagsins.

Fyrirtæki tengd Sverri fengu milljarða afskrifaða

Sverrir Sverrisson og félög honum tengd voru áberandi á árunum í kringum hrun og í kringum fall Sparisjóðs Keflavíkur, að hluta til vegna viðskipta með eignir á Keflavíkurflugvelli. Þannig var Sverrir í eigendahópi Fasteignafélags Suðurnesja og Blikavalla 3, en samtals fengu þessi félög rúmlega hálfan milljarð króna afskrifaðan af skuldum sínum. Þá var Sverrir einn eigenda Miðlands ehf., en það fyrirtæki var yfirtekið af Landsbankanum eftir að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Sparisjóði Keflavíkur, sem einnig yfirtekinn var af Landsbankanum. Sverrir átti einnig hlut í Heiðbúum ehf., en við gjaldþrot þess fyrirtækis fékkst ekkert upp í um 2,2 milljarða kröfur.

Þá eru fyrirtæki tengd Sverri enn afkastamikil í fasteignaviðskiptum á Ásbrúarsvæðinu samkvæmt heimildum Suðurnes.net.