Geta gert samning um afnot af húsnæði í Grindavík
Þeir aðilar sem áttu húsnæði í Grindavík geta nú gert samning um afnot af húsinu og greiða þá aðeins fyrir hita og rafmagn. Um er að ræða svokallaðan hollvinasamning við seljendur hvað varðar umhirðu, minniháttar viðhald og almennt eftirlit með eignunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fasteignafélaginu Þórkötlu, en þar segir einnig að á meðan samningurinn er í gildi sé gengið út frá því að hollvinur heimsæki eignina og sinnir Þórkatla því ekki hefðbundnu eftirliti á meðan, nema hollvinur óski eftir því sérstaklega. En tekið er fram að óheimilt sé að dvelja í fasteigninni næturlangt. Einnig er óheimilt að hafa þar fasta búsetu.
Þá er tekið fram að kostnaður við hollvinasamning verður tvíþættur. Annars vegar borgar hollvinur mánaðarlegan kostnað af rafmagni og hita á fasteigninni. Hins vegar greiðir hollvinur 30.000 kr. einskiptis umsýslugjald þegar samningurinn er gerður.