Nýjast á Local Suðurnes

Lögregla fylgdi gildandi verklagsreglum – Rannsókn á andláti hófst eftir að niðurstaða réttarmeinafræðings barst

Lög­regl­an á Suður­nesj­um seg­ir að gild­andi verklags­regl­um hafi verið fylgt við aðkomu að and­láti konu á sex­tugs­aldri en kon­an fannst lát­in í heima­húsi þann 28. mars síðastliðinn. Lög­regl­an seg­ir að rann­sókn sé í full­um gangi.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá lög­regl­unni, en þar seg­ir jafnframt að þann 28. mars hafi ætt­ingi kon­unn­ar til­kynnt um lát henn­ar til lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um. Rann­sókn­ar­lög­reglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn og að ekk­ert á vett­vangi hafi bent til þess að eitt­hvað sak­næmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkra­stofn­un, seg­ir í tilkynningu.

Þá segir í tilkynningunni að þann 31. mars hafi lögreglu borist niðurstaða rétt­ar­meina­fræðings þess efn­is að sterk­ur grun­ur léki á að and­látið hefði borið að með sak­næm­um hætti. Þá þegar var karl­maður á sex­tugs­aldri hand­tek­inn vegna rann­sókn­ar á mál­inu. Hann var úr­sk­urðaður í gæslu­v­arðhald frá 1. apríl til 8. apríl næst­kom­andi og staðfesti Lands­rétt­ur þann úr­sk­urð 3. apríl síðastliðinn.

Það skal und­ir­strikað að lög­regla fylgdi gild­andi verklags­regl­um við aðkomu að mál­inu frá fyrstu stundu. Rann­sókn er í full­um gangi en ekki er unnt að veita frek­ari upp­lýs­ing­ar að svo komnu máli, seg­ir í tilkynningu lögreglu.