Mikill munur á útgjöldum vegna félagsþjónustu – Sandgerði langt yfir landsmeðaltali
Sandgerðisbær greiðir átta sinnum meira af skatttekjum á íbúa í barnaverndarmál heldur en nágrannasveitarfélagið Garður. Þannig greiðir Sandgerðisbær að meðaltali um 24 þúsund krónur í barnaverndarmál á hvern íbúa, á meðan Garður greiðir að meðaltali um þrjú þúsund krónur.
Í Reykjanesbæ er þessi tala um 15 þúsund krónur á íbúa, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaganna, en í Grindavík og Vogum eru greiddar um sjö þúsund krónur á íbúa í þennan málaflokk og eru tvö síðastnefndu sveitarfélögin á pari við landsmeðaltal í þessum málaflokki.
Rétt er að hafa í huga að mikill munur getur verið á kostnaði vegna þjónustu við börn og unglinga á hvern íbúa eftir sveitarfélögum þar sem sveitarfélögin bjóða upp á mismunandi þjónustustig, auk þess sem félagslegur bakgrunnur íbúa og menntunarstig getur haft áhrif á kostnaðinn.
Sé kostnaður vegna félagsþjónustunnar í heild skoðaður kemur í ljós að íbúar í Sandgerðisbæ greiða næst mest allra sveitarfélaga á landinu, í gegnum útsvar sitt og fasteignagjöld, eða 207 þúsund krónur á íbúa, aðeins íbúar Akureyrarkaupstaðar greiða meira, eða 233 þúsund krónur. Félagsþjónustan kostar hvern íbúa í Reykjanesbæ um 147 þúsund krónur á ári, í Grindavík er talan um 120 þúsund krónur og í Garði og Vogum fara um 95 þúsund krónur af skattgreiðslum hvers íbúa í rekstur félagsþjónustunnar.
Félagsþjónustan kostar landsmenn að meðaltali um 157 þúsund krónur á íbúa og er Sandgerðisbær því eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem er yfir landsmeðaltali þegar kemur að þessari grunnþjónustu samfélagsins.