Nettó nálgast Krónuna í verðum á matvöru
Verðbilið milli matarkörfunnar í Krónunni og Nettó hefur dregist verulega saman á tímabilinu frá ágúst til október samkvæmt verðkönnunum Veritabus, sem kannar verð í Krónunni, Nettó, Hagkaupum og Heimkaupum reglulega.
Samkvæmt könnunum fyrirtækisins hefur matarkarfan lækkað um 3,3 prósent í Nettó á þessu tímabili, á meðan verð hefur almennt hækkað um 0,8%. Verð matarkörfunnar er hæst í Heimkaupum og eykst munurinn milli Heimkaupa og annarra verslana í könnuninni frá ágúst til október.
Veritabus kannaði 96 vöruliði, sem til voru í öllum verslununum. Könnunin fór fram í síðustu viku og var gerð á netinu. Væru vörur ekki til á netinu var verð í verslununum kannað. Verð eru ekki könnuð í Bónus þar sem sú verslunarkeðja býður ekki upp á verslun á netinu.