Nýjast á Local Suðurnes

Áhyggjur af fjölda í strætó – Engin formleg kvörtun vegna áreitis

Forsvarsmenn Bus4U, rekstraraðila strætó í Reykjanesbæ, hafa haft áhyggjur af fjölda fólks sem nýtir almenningssamgöngur í sveitarfélaginu, en fjölgunin stafar aðallega af fjölda flóttafólks í Reykjanesbæ. Engar formlegar kvartanir hafa borist inn á borð sveitarfélagsins vegna áreitis um borð í vögnunum fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í svari sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, Guðlaugs Helga Sigurjónssonar, við fyrispurn Suðurnes.net um stöðu almenningssamgangna í sveitarfélaginu, en forsvarsmenn Bus4U sendu fyrir nokkru erindi til bæjarráðs um úrbætur eða breytingar vegna fjölgunar notenda á þjónustu fyrirtækisins. Vinnumálastofnun hefur sett á laggirnar úrræði um akstur, að beiðni Reykjanesbæjar, sem sérstaklega er ætlað skjólstæðingum stofnunarinnar í Reykjanesbæ, en það verið illa nýtt, að sögn Guðlaugs, og kjósa viðkomandi aðilar frekar að nýta almenningssamgöngur.

Guðlaugur Helgi sagði sumarið þó hafa gengið vel, en að taka þyrfti málin til skoðunar þegar nær dregur haustinu og skólabörn fara að nýta þjónustuna á ný.

Aðspurður sagði Guðlaugur Helgi að engin formleg kvörtun hafi borist til sveitarfélagsins vegna áreitis um borð í strætó, enda ættu slík mál frekar heima á borði lögreglu, en sögusagnir um slíka hegðun hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarin misseri.