Nýjast á Local Suðurnes

Um helmingur starfsfólks Elko í Leifsstöð hefur sagt upp störfum

Starfsfólk Elko í Leifsstöð er óánægt með að hafa verið gert að lækka starfshlutfall úr 100% niður í 70% eftir að nýr verslunarstjóri tók við stjórn verslunarinnar fyrir nokkrum misserum.  Einnig hefur borið á óánægju starfsfólks vegna framkomu verslunarstjórans Guðjóns Júlíussonar, en starfsmenn sem Local ræddi við segja hann sýna hrokafulla framkomu og yfirgangssemi, meðal annars fyrir framan viðskiptavini.

Guðjón sagði í svari við fyrirspurn Local Suðurnes að hann teldi ekki rétt að ræða starfsmannamál fyrirtækisins við fjölmiðla en hann staðfesti þó að 6 af 15 starfsmönnum hefðu sagt upp störfum og gefið upp ýmsar ástæður. Heimildir Local Suðurnes herma að fleiri uppsagnir muni berast fyrirtækinu á næstu dögum.

Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja sagði félagið ekki hafa fengið þessi mál aftur inná borð hjá sér og að það færi eftir eðli mála hvort félagið beitti sér, meðal annars hvort um væri að ræða kjarasamningsbundin brot eða ekki. Hann sagði félagið þó vera til staðar ef til þess væri leitað.

Þessi frétt var fyrst birt í fréttapósti Local Suðurnes – Þú getur skráð þig hér!