Nýjast á Local Suðurnes

HS Orka óskar eftir leyfi fyrir tilraunaborunum í Eldvörpum

Skipulagsnefnd Grindavíkurbæjar tók á fundi sínum þann 19. október fyrir erindi frá HS orku þar sem fyrirtækið óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir tilraunaborunum í Eldvörpum, en tilgangur borananna mun meðal annars vera sá að auka við þekkingu á umfangi, eðli og innri gerð jarðhitasvæðisins auk þess sem skera á úr um hæfi svæðisins til virkjunar.

Hitaveita Suðurnesja hefur borað eina borholu í Eldvörpum og var það gert árið 1983. Sú hola var eingöngu boruð í vísindaskyni, þar sem athugað var með varasvæði fyrir virkjunina sem þá var verið að byggja í Svartsengi. Holan er 1.265 metrar djúp og var hún talin ein aflmesta jarðhitahola í Evrópu við prófanir.

Rannsóknir hafa staðfest viss tengsl á milli jarðhitakerfisins í Eldvörpum og í Svartsengi sem er vísbending um stærra jarðhitasvæði en upphaflega var talið.

Rannsóknarholurnar sem nú er sótt um að fá að bora í Eldvörpum verða þeirrar gerðar að þær geti nýst síðar sem vinnsluholur ef til virkjunar kemur. Mannvirkjagerð við tilraunaboranirnar felst í uppbyggingu borplana, lagningu tengivega frá vegslóðum að borplönum og styrkingu tiltekinna vegslóða sem liggja nú þegar um svæðið.

Skipulagsnefnd lagði til á fundi sínum að bæjarstjórn veiti umrætt framkvæmdaleyfi en með skilyrðum sem snúa meðal annars að því leiðbeiningum um frágang borteiga sem unnið var af verkfræðistofunni VSÓ verði fylgt og að lögun hvers borteigs fái samþykki eftirlitsaðila Grindavíkur. Einnig eru sett  fram skilyrði um að lögð verði fram vöktunaráætlun um hvernig endurgræðslu á mosa á svæðinu verði háttað.