Nýjast á Local Suðurnes

Ósk um stækkun hótels hafnað eftir andmæli nágranna

Ósk um stækkun á hóteli við Hafnargötu 57 í Reykjanesbæ hefur verið hafnað af umhverfis- og skipulagsráði. Stefnt var að stækkun um 30 herbergi á tveimur hæðum ásamt stigahúsi og tengibyggingu.

Málið var rætt á fundi ráðsins þann 16. júní síðastliðinn, en þar kom fram að andmæli hafi komið frá íbúum í nágrenni hótelsins við grenndarkynningu, en andmælt var meðal annars mikilli uppbyggingu í stuttri fjarlægð við aðliggjandi hús við Framnesveg með líklegri innsýn, skuggavarpi og mögulegum sambruna.

Umhverfis- og skipulagsráð tók undir andmæli íbúa á fundinum og hafnaði umræddri deiliskipulagsbreytingu.