Nýjast á Local Suðurnes

HS Orka frábiður sér órökstuddar ályktanir sem ekki eiga sér stoð í gögnum

Að gefnu tilefni af fréttum um meinta ráðgjöf HS Orku við oddvita og hreppsnefnd vegna beiðni um upplýsingar til Árneshrepps vill HS Orka koma eftirfarandi á framfæri.

HS Orka veitti enga lögfræðiráðgjöf vegna málsins. Þetta staðfestir tölvupóstur sem lögfræðingur HS Orku sendi oddvita Árneshrepps þegar málið kom upp. Í tölvupósti til sveitarfélagsins var oddvitanum þess í stað vísað á lögfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga eða aðra lögmenn til að leita sjálfstæðrar lögfræðiráðgjafar.

Í öðrum tölvupósti sem forstjóri HS Orku sendi oddvita Árneshrepps í kjölfarið var greint frá þeirri afstöðu fyrirtækisins að það hefði ekkert á móti því að gögn yrðu birt á grundvelli beiðninnar, framkvæmdaaðilinn hefði ekkert að fela og að það væri til þess fallið að skapa tortryggni að afhenda þau ekki.

Stjórnarmaður í Rjúkanda segist hafa öll tölvupóstsamskipti undir höndum sem hann hefur komið á framfæri við fjölmiðla. Einhverra hluta vegna hefur hvorki svar lögfræðings HS Orku né afstaða forstjórans sem send var hreppnum, ratað í fréttir fjölmiðla. HS Orka telur það miður og frábiður sér órökstuddar ályktanir sem ekki eiga sér stoð í gögnum og liggja þó fyrir.

Í viðhengi er tilkynningin sem birt er hér að ofan auk afrita af þeim tölvupóstum sem um ræðir.