Nýjast á Local Suðurnes

Setja sérskilmála vegna Hafnargötu 12 – Heimilt að byggja 35 íbúðir á tveimur hæðum

Á síðasta fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar voru lagðir fram sérskilmálar vegna deiliskipulags á lóðinni við Hafnargötu 12, en fyrirtækið Hrífufang ehf. hafði óskað leyfis til byggingar á 74 íbúðum í þriggja hæða fjölbýlishúsi með bílakjallara á lóðinni.

Helsta breytingin sem sérskilmálarnir ná til að byggingarnar skulu vera tveggja hæða, í stað þriggja, og íbúðum þar með fækkað um 40, eða úr 74 í 30-35. Þá eru sett skilyrði vegna lóðarfrágangs, aðkomu og bílastæða.

Reykjanesbær hafnaði deiliskipulagsbreytingum eftir að um 40 athugasemdir bárust við tillögur fyrirtækisins frá íbúum í nærliggjandi hverfum, meðal annars athugasemdir við of mikið byggingarmagn, fjölda íbúða, útsýnisskerðingu og stílbrot við umhverfið, svo eitthvað sé nefnt.

Þá telur Minjastofnun mikilvægt að endurskoða mótun og umfang nýbygginga á deiliskipulagsreitnum þannig að uppbyggingin taki í meira mæli tillit til mismunandi einkenna, mælikvarða og yfirbragðs sögulegrar byggðar og götumynda í nánasta umhverfi og við aðliggjandi götur.

Sérskilmálarnir voru samþykktir af bæjarstjórn þann 21. mars síðastliðinn og þá má finna hér.