Gríðarlegt álag á bílstjórum – Leggur til að strætókortum flóttafólks verði lokað

Eigandi Bus4U, rekstraraðila strætó í Reykjanesbæ, leggur til að strætókortum flóttafólks verði lokað. Þetta kemur fram í erindi fyrirtækisins til bæjarráðs Reykjanesbæjar og mbl.is hefur undir höndum. Í erindinu kemur meðal annars fram að starfsfólk fyrirtækisins verði fyrir áreiti og að illa gangi að manna vagna fyrirtækisins af þeim sökum.
Suðurnes.net fjallaði um málið á dögunum, en í svörum sviðstjóra hjá Reykjanesbæ við fyrirspurn kom fram að lítið væri um vandamál það sem af væri sumri, en að skoða þyrfti almenningssamgöngur þegar líða færi að skólabyrjun. Þetta stangast á við það sem kemur fram í erindi Bus4U, en þar segir að “ákveðnir hópar“ séu ágengir og frekir, að börn veigri sér við því að nota strætó sökum áreitis, skemmdarverk á vögnum hafi aukist, bílstjórar hrökklist úr starfi og að ef ekkert verði að gert þá stefni í þjónustufall. Til að sporna við þessu leggur hann til að strætókortum flóttamanna verði lokað.
„Kvartanir til bílstjóra og annarra starfsmanna/eigenda Bus4U snúa allar að því sama, fólk veigrar sér við að nota vagnana og börn eru að hverfa úr vögnunum vegna þrengsla og áreitis. Einnig hefur reynst nær ómögulegt að halda tímaplan ferða,“ segir í erindinu.
Þá segir orðrétt að „Álag á bílstjórum er gríðarlegt, þar sem ákveðnir hópar eru mjög ágengir og frekir á sína stöðu. Félagið á vegna þessa í miklum vandræðum með að manna bílana því vanir bílstjórar eru að hrökklast úr starfi og nýir bílstjórar hætta nær samstundis.“