Nýjast á Local Suðurnes

Ísak Ernir vill endurskoða reglur varðandi félagslega húsnæðiskerfið – Leigugjald mun hækka

Ísak Ernir Kristinsson lagði fram hugmyndir af tillögum um endurskoðun á reglum varðandi félagslega húsnæðiskerfið, á fundi Velferðarráðs, sem haldinn var þann 15. ágúst síðastliðinn. Ísak Ernir óskaði sem kunnugt er eftir því að fundi ráðsins yrði flýtt vegna erfiðleika á húsnæðismarkaði.

Á fundinum kom einnig fram að rekstur Fasteigna Reykjanesbæjar hafi verið erfiður og til að gera félagið fjárhagslega sjálfbært liggur fyrir að leigugjald mun hækka og leiguverð samræmt frá 1. október nk. Jafnframt er gert ráð fyrir tilfærslu félagsins yfir í húsnæðissjálfseignarstofnun (HSES).

Hera Ósk sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjanesbæjar mun vinna hugmyndir Ísaks Ernis áfram og leggja fram á næsta fundi velferðarráðs.

Félagslegar leiguíbúðir voru í lok árs 2016 samtals 239 og skiptust í almennar félagslegar leiguíbúðir samtals 175 og íbúðir aldraðra, bæði hlutdeildar- og leiguíbúðir samtals 64. Fyrir liggja 103 umsóknir um almennar félagslegar íbúðir og 63 umsóknir um íbúðir aldraðra. Biðtími er að meðaltali 3,5 ár eða 42 mánuðir. Endurúthlutanir félagslegra íbúða hafa dregist saman á undanförnum árum sem og umsóknum um félagslegt húsnæði. Nýjum umsóknum virðist þó fara fjölgandi í ár, segir í fundagerð ráðsins.