Nýjast á Local Suðurnes

Vildu leiðrétta neikvæða ímynd – Birting 200 jákvæðara frétta skilaði árangri

Markaðsátakið Reykjanes – við höfum góða sögu að segja, hefur gengið vel frá því að var sett af stað fyrir tveimur árum, en markmiðið með verkefninu er meðal annars að leiðrétta neikvæða ímynd Reykjaness, sýna fram á kosti svæðisins sem atvinnu- og búsetusvæðis og um leið stappa stálinu í núverandi íbúa og auka stolt þeirra og ánægja af sinni heimabyggð.

Markaðsfyrirtækið H:N Markaðssamskipti hefur unnið verkefnið í samstarfi við Hekluna, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og mættu verkefnastjórar fyrirtækisins á fund þróunarfélagsins á dögunum þar sem farið var yfir þann árangur sem verkefnið hefur skilað.

Greint var frá könnun sem gerð var á síðari hluta síðasta árs um viðhorf fólks til landshluta. Könnunin sýnir aukningu í jákvæðni til svæðisins, nú eru jákvæðir 70% en árið 2016 voru það 67% og árið 2015 64%.

Þá kom fram í kynningunni að á þeim tveim árum sem verkefnið hefur staðið yfir hefur náðst að koma um 200 jákvæðum fréttum af svæðinu á framfæri. H:N Markaðssamskipti lýstu áhuga á að halda verkefninu áfram og lögðu þeir fram lista yfir verkefni sem þarf að vinna á árinu auk kostnaðaráætlunar.