Nýjast á Local Suðurnes

Segja upp fólki í Reykjavík en auka við mannskap á Keflavíkurflugvelli

Icelandair hefur sagt upp sextán starfsmönnum á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík, en uppsagnirnar eru liður í skipulagsbreytingum sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði. Rúmlega 500 manns starfa á skrifstofu félagsins í Reykjavík og um fimm þúsund manns hjá félaginu í öllum deildum.

Fyrirtækið mun hins vegar fjölga starfsfólki á Keflavíkurflugvelli í sumar vegna fyrirsjáanlegrar aukningar í fjölda flugfarþega hjá fyrirtækinu, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra flugfélagsins, en hann segir að farþegum flugfélagsins fækki ekki þrátt fyrir spár um fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll.

Bogi segir meðal annars að samdrátturinn sé í flutningum hjá öðrum flugfélögum. „Við erum með okkar áætlun í gangi og vinnum eftir henni. Og við sögðum okkar hluthöfum frá því í byrjun desember, hvað við værum að vinna með inn á næsta ár, og það er í kringum 10% vöxt. Það er grunnáætlun okkar og það er enn sú forsenda sem við erum að vinna með inn á árið. “