Nýjast á Local Suðurnes

Halda styrktartónleika fyrir Sólrúnu Öldu í Grindavík – Langur endurhæfingartími framundan

Þriðjudaginn 10. desember verða haldnir styrktartónleikar fyrir Sólrúnu Öldu og fjölskyldu hennar á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík. Fram kemur á vef Mannlífs að úrval grindvískra tónlistarmanna og Grindavíkurvina muni leika og syngja tónlist úr öllum áttum.

Sólrún Alda slasaðist lífshættulega í bruna fyrr á árinu ásamt kærasta sínum, Rahmon, og ljóst er að nú tekur við langur endurhæfingartími hjá parinu.

Þeir sem staðfest hafa komu sína á tonleikana nú þegar eru Íris Kristinsdóttir, Dagbjartur Willardsson, Kirkjukór Grindavíkur, 3/4 hljómsveit, Pálmar Guðmundsson, Guðjón Sveinsson og hljómsveit, Sólný Pálsdóttir og hljómsveit, Sigga Maya ÓBÓ og Dói, Axel O og Hljómsveitin Kylja. Guðjón Sveinsson sér um uppsetningu og allar græjur auk þess að spila á gítar og syngja.

„Aðgangur er ókeypis, en við verðum með söfnunarkassa þar sem fólk getur sett frjáls framlög eftir getu og vilja. Við ákváðum að hafa þetta svona þannig að allir geta gert það sem þeir geta, í stað þess að hafa aðgangseyri. Ef einhver getur gefið 500 kr. þá er hann jafn vel þeginn og 5.000 kallinn,“ segir skipuleggjandi tónleikana við Mannlíf.