Nýjast á Local Suðurnes

Vilja að grasið sé slegið oftar í Reykjanesbæ – Óánægðir íbúar reyndu að ganga í störf verktaka

Nokkurar óánægju virðist gæta með slátt á opnum svæðum í Reykjanesbæ, ef eitthvað er að marka umræður í lokuðum hóp á Facebook, sem ætlaður er fyrir íbúa sveitarfélagsins. Í umræðum um málið kemur meðal annars fram að íbúar hafi reynt að ganga í störf verktaka í efri hverfum Reykjanesbæjar, en að sláttuvélar þeirra hafi hreinlega ekki ráðið við verkið.

Umræður um málið í hópnum eru líflegar, eins og vænta má, og svarar Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar fyrir málið í umræðunum og segir verktaka sem slá á vegum sveitarfélagsins fara eftir skilmálum útboðs, sem kveður á um að slegið sé þrisvar sinnum yfir sumarið og að komið sé að loka slætti þessa árs á næstu dögum. Guðlaugur bendir einnig á að gras spretti misjafnlega á milli ára.

Þá segir Guðlaugur að til standi að bjóða sláttinn út að nýju og að væntanlega verði slegið oftar á einhverjum svæðum í sveitarfélaginu eftir það útboð. Þá bendir Guðlaugur á að kostnaður við sláttinn sé um 30 milljónir króna á ári.