Nýjast á Local Suðurnes

Fólkið sem býður sig fram til stjórnar VS – Litlar upplýsingar að fá um framboð B-lista

Félagsfundur verður haldinn í Verslunarmannafélagi Suðurnesja (VS) í kvöld. Fundurinn fer fram í Hljómahöll og hefst klukkan 20, eina málið á dagskrá fundarins er allsherjaratkvæðagreiðsla um hvor stjórnarkjör fari fram á ný, en annað af tveimur framboðum til stjórnar VS var dæmt ógilt af kjörstjórn undir lok síðasta mánaðar.

Suðurnes.net óskaði eftir upplýsingum um frambjóðendur og reynslu formannsefna fylkinganna tveggja sem berjast um stjórnartaumana í félaginu af verkalýðsmálum og urðu fulltrúar A-lista við beiðni um að veita umbeðnar upplýsingar. Engar upplýsingar bárust hins vegar frá forsvarsmönnum B-lista þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og núverandi formaður VS sá sér fært um að svara spurningum blaðamanns, en hann býður sig fram til formennsku á ný.

Í svari Guðbrands kemur meðal annars fram að hann hafi starfað sem framkvæmdarstjóri og formaður VS undanfarin ár. Þá hefur Guðbrandur  setið sem formaður landssambands verslunarmanna, verið varaformaður stjórnar MSS, stjórnarmaður í Samvinnu starfsendurhæfingu. Guðbrandur hefur átt sæti í fulltrúaráði VIRK, setið í miðstjórn Efnahags- og skattanefndar, auk Skipulags- og starfsháttanefndar. Auk þessa hefur Guðbrandur tekið sæti í fjölda nefnda og ráða innan verkalýðshreyfingarinnar. Guðbrandur hefur verið bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar undanfarin fjögur ár.

Hér má finna lista með nöfnum þeirra sem bjóða fram fyrir A og B lista í stjórnarkjörinu.