Farmers Soup opnar við Seltún í Krýsuvík – Hollar og góðar súpur

Súpubíllinn Farmers Soup opnaði fyrir gesti og gangandi við Seltún í Krýsuvík á dögunum, þar með hafa ferðalangar sem eiga leið um þennan vinsæla stað tækifæri á því að gæða sér á ferskum og hollum mat í þessari miklu náttúruparadís.
Forsvarsmenn Farmers Soup sögðust í samtali við Local Suðurnes vera mjög þakklátir stjórnendum Hafnarfjarðarbæjar sem brugðust skjótt við umsókn um að hafa bílinn staðsettan í Krýsuvík og veittu leyfið til að vera á þessum líka fallega stað.
Það er ekki einungis boðið upp á dýrindis sjávarrétta- og kjötsúpu hjá Farmers Soup því einnig er í boði að kaupa samlokur, ommilettur auk þess sem þau bjóða upp á kaffi og allskyns meðlæti.
Það er matreiðslumaðurinn Gylfi Ingason sem eldar ofan í svanga ferðalanga í Krýsuvík og það er óhætt að segja að enginn fari svangur frá Súpuvagninum en blaðamaður Local sem átti leið um svæðið á dögunum gæddi sér á alvöru sjávarréttasúpu fullri af góðgæti.
Auk þess að bjóða upp á frábæran mat leggur Farmers Soup áherslu á að veita persónulega og góða þjónustu og það er óhætt að segja að enginn verði svikinn af því að staldra við og spjalla við vertinn, að minnsta kosti staldraði blaðamaður mun lengur við en ætlunin var.
Farmes Soup heldur úti Facebook síðu en þar má finna helstu upplýsingar og fréttir af súpubílnum.