Þungfært innanbæjar – Hvetja ökumenn á illa búnum bílum til að vera ekki á ferðinni
Snjómokstur stendur nú yfir í Grindavík, en þungfært er orðið í bænum. Á vef sveitarfélagsins kemur fram að unnið sé að mokstri samkvæmt forgangskorti, en upplýsingar um það má er að finna neðar í fréttinni.
Það er vetrarfærð í dag enda mikill skafrenningur sem spáð er að muni standa fram á kvöld. Það eru vinsamleg tilmæli frá þjónustumiðstöð Grindavíkurbæjar að illa búnir bílar séu ekki á ferðinni meðan unnið er að snjóruðningi því þeir tefja fyrir snjómokstrinum.
Inni á vef Vegagerðarinnar má sjá færð á vegum utan bæjarins en búið er að loka Suðurstrandarvegi vegna ófærðar. Á Grindavíkurvegi er skafrenningur.
Í forgangi eru aðalumferðargötur þannig að fært sé að Grindavíkurvegi, skólum, leikskólum, slökkviliðsstöð, heilbrigðisstofnun, niður að höfn, og ákveðinn öryggishring sem nýtist flestum bæjarbúum. Samhliða snjómokstri eru almenningsbílastæði í miðbænum mokuð enda gerð þeirra kostuð af sveitarfélaginu. Plön og heimkeyrslur við íbúðarhús og fyrirtæki eru ekki mokuð á kostnað bæjarins. Mokstur vegna öryrkja er við sérstakar aðstæður framkvæmdur samkvæmt beiðni félagsþjónustunnar.