Bílastæðavandamál við grunnskóla – Lá við slysi þegar ekið var yfir gangstétt
Skólastjónendur Akurskóla í Njarðvík og Heiðarskóla í Keflavík hafa undanfarið beint þeim tilmælum til foreldra sem aka börnum sínum til og frá skóla að notast við hringtorg sem eru við inngang skólanna tveggja í stað þess að notast við starfsmannastæði, eins og mikið virðist vera um.
Íbúar við Heiðarból hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna bílastæðamála við Heiðarskóla en bílum er ítrekað lagt við götuna þó að þar séu merkingar um að slíkt sé óheimilt. Töluverðar umræður hafa skapast um bílastæðamálin við Heiðarskóla á Facebook-síðunni “Reykjanesbær-Gerum góðan bæ betri” eftir að dagforeldrar sem starfa við Heiðarból kvörtuðu undan því að bílastæði sem ætluð eru viðskiptavinum þeirra væru notuð af foreldrum sem aka börnum sínum í skólann.
“Við erum búnar að vera mjög þolinmóðar undanfarin 12 ár en nuna segjum við stopp. Við komumst varla i og úr vinnu vegna þess að öll stæðin eru upptekin af foreldrum sem eru að skutla börnunum í skólann.” Segir meðal annars í innleggi á Facebook-síðunni.
Lá við slysi við Akurskóla
Stjórnendur Akurskóla hafa verið duglegir við að brýna fyrir foreldrum að nota hringtorg við aðalinngang skólans og er það gert vegna slysahættu sem myndast þegar foreldrar notast við starfsmannastæði. Á Facebook-síðu Akurskóla kemur fram að legið hafi við slysi á dögunum, þegar ökumaður ók yfir gangstétt:
“Fjölmörg börn og fullorðnir eru að ganga yfir bílastæðið og í síðustu viku lá við slysi þegar ökumaður ók inn á stæðið, ók yfir gangstéttina sem skilur bílastæðin að á miðju svæðinu og hleypti svo tveimur börnum út og ók í burtu.” Segir á Facebook-síðu Akurskóla.