Nýjast á Local Suðurnes

Íbúar Reykjanesbæjar ánægðastir með aðstöðu til íþróttaiðkunar

Þjónusta Reykjanesbæjar er yfir landsmeðaltali í 6 þjónustuþáttum af 12 samkvæmt nýrri könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga 2015. Ánægðastir eru íbúar með aðstöðu til íþróttaiðkana en óánægðastir með umhverfið í nágrenni heimilisins.

Yfir 86% íbúa segjast ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bæjarfélaginu. Meðaltalsniðurstaðan er 4,2 en er 4,0 á landsvísu af fimm mögulegum. Reykjanesbær skorar einnig hærra í ánægju með þjónustu grunnskóla og leikskóla, þjónustu við fatlaða og eldri borgara og með skipulagsmál almennt. Munar þar einu til tveimur stigum miðað við landsmeðaltal.

Hvaða hina þjónustuþættina sex varðar gefur niðurstaða könnunarinnar bæjaryfirvöldum tækifæri til að gera enn betur, segir á vef Reykjanesbæjar. Auk umhverfisins er það þjónusta við sorphirðu, menningarmál, þjónusta við barnafjölskyldur, bæjarfélagið til búsetu og þjónusta bæjarfélagsins á heildina litið.