Hafa gefið yfir þúsund skammta af mat – Fólk hvatt til að styrkja björgunarsveitirnar

Leitin að Birnu Brjánsdóttur, sem meðal annars fer fram um allt Reykjanesið, er sú umfangsmesta sem björgunarsveitir slysvarnafélagsins Landsbjargar hafa staðið fyrir. Um 570 manns taka þátt í leitinni og eru notaðar tvær þyrlur, 15-20 fjórhjól, 11 leitarhundar, 10 drónar og allur bílakostur björgunarsveitanna, auk fjölmargra einkabíla sem notaðir eru til að ferja leitarfólk á milli staða.
Mikill samhugur er á meðal þjóðarinnar í þessu erfiða máli og hafa fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar lagt björgunarsveitunum lið á einn eða annan hátt, Suðurnesjafyrirtækið Skólamatur er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa útvegað sveitunum mat, en fyrirtækið hefur athent um eitt þúsund máltíðir í dag.
“Já, við afhentum björgunarsveitum á suðurnesjum og í kópavogi c.a. 1000 skammta af kjötsúpu eða lasagna,” sagði Jón Axelsson, framkvæmdarstjóri í spjalli við Suðurnes.net. “Og við hvetjum aðra til að styðja björgunarsveitirnar, hver á sinn hátt.” Sagði Jón.
Móðir Birnu, Sigurlaug Hreinsdóttir, hefur afþakkað fjársafnanir, en bent fólki á að styrkja frekar björgunarsveitir með fjárstyrkjum.
Þá hafa einstaklingar hvatt olíufélögin til að standa við bakið á björgunarsveitunum með því að gefa eldsneyti á tækjakost sveitanna.