Nýjast á Local Suðurnes

Telur að lítið megi út af bregða svo ekki verði uppþot meðal óánægðra farþega í FLE

Ástandið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er svo eldfimt, þegar upp koma miklar seinkanir á flugi, að lítið má út af bregða svo ekki verði uppþot meðal óánægðra farþega. Þetta er mat Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, en greint var frá mati lögreglustjórans í umræðum í flugvirktarráði í janúar.

„ÓHK [Ólafur Helgi Kjartansson] kom einnig að öryggismálum í flugstöðinni sjálfri, lítið þurfi til að það komi til uppþota vegna seinkana og þess háttar,“ segir í fundargerðinni.

Frá þessu er greint á Vísi.is, en ekki náðist í lögreglustjórann þar sem hann er erlendis í fríi. Guðni Sigurðsson, fjölmiðlafulltrúi Isavia segir hins vegar að þetta sé ekki upplifun starfsmanna fyrirtækisins.

„Það er ekki upplifun starfsmanna Isavia að þetta ástand sé ríkjandi,” segir Guðni. „Auðvitað er mikið af farþegum á þeim álagstímum sólarhringsins sem stóru flugfélögin fljúga en tekist hefur að dreifa álaginu betur bæði yfir sólarhringinn og árið og er það lykilatriði í að takast á við svona mikla fjölgun farþega á svona stuttum tíma. Enn eru tímabil yfir sólarhringinn, á milli stóru álagspunktanna, þar sem lítið er að gera í flugstöðinni, jafnvel yfir hásumarið,“ segir Guðni.