Nýjast á Local Suðurnes

6,8 milljónir fóru um Keflavíkurflugvöll – Mesta fjölgun ferðamanna utan sumartíma

Tæplega 7 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll árið 2016, tveimur milljónum fleiri farþegar en árið 2015. Farþegafjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 40% aukningu á milli ára. Mest er fjölgunin á meðal skiptifarþega og á meðal farþega sem ferðast utan sumartímans.

Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir áframhaldandi fjölgun farþega á þessu ári og verður hún með svipuðum hætti, það er mest utan álagstíma. Spáin gerir ráð fyrir 8,75 milljónum farþega árið 2017.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia segir í tilkynningu að þróunin sé gríðarlega jákvæð.

“Þessi stöðuga mikla fjölgun farþega og flugtenginga um Keflavíkurflugvöll er gríðarlega jákvæð fyrir Ísland, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna heldur má ekki gleyma því hvað öflugar tengingar hafa mikil og góð áhrif á viðskiptalífið í heild og einnig fræðasamfélagið”

Isavia hefur lagt sérstaka áherslu á að markaðssetja flugvöllinn og Ísland sem heilsársáfangastað, meðal annars með því að bjóða afslátt af þjónustugjöldum utan sumartíma þegar flugfélög opna nýja heilsársleið. Þetta er í takt við áherslur ferðaþjónustunnar á Íslandi og hefur skilað þeim árangri að nú er ferðaþjónustan orðin að heilsársatvinnugrein. Með þessu nýtast allir innviðir mun betur, bæði flugvöllurinn og aðrir mikilvægir innviðir ferðaþjónustunnar. Auk þess að minnka árstíðarsveifluna hefur tekist að dreifa umferðinni betur yfir sólarhringinn en það hefur orðið til þess að nýta mun betur innviði á Keflavíkurflugvelli, en þar voru nánast engir farþegar utan álagstíma fyrir nokkrum árum.