Nýjast á Local Suðurnes

Hýsa of marga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, telur að Vinnumálastofnun, fyrir hönd ríkisins, sé að hýsa allt of marga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ. Hann telur að álag á innviði sé nú þegar allt of mikið.

Til stóð að fækka umtalsvert í þessum hópi á síðasta ári, en svo virðist sem það gangi hægt.

Þetta kemur fram í færslu Kjartans á Facebook, þar sem hann fer yfir stöðu mála. Færsluna má sjá í heild hér fyrir neðan:

Í kjölfar greinar Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, í Mbl. um hælisleitendur hef ég verið spurður um afstöðu Reykjanesbæjar til sama málaflokks. Hún er óbreytt og alveg skýr. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ telja að Vinnumálastofnun, f.h. ríkisins, sé að hýsa allt of marga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ og að álag á innviði (leik- og grunnskóla, strætó, þjónustuver, félagsþjónustu, barnavernd ofl.) sé allt of mikið. Þessari skoðun hefur marg oft verið komið á framfæri við stjórnvöld, sem stefna að fækkun, en lítið gerist.

Málaflokkurinn er á hendi amk. tveggja ráðuneyta þ.e. dómsmálaráðneytis, sem ber ábyrgð á löggæslu og landamæraeftirliti á Keflavíkurflugvelli ásamt afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, sem að okkar mati tekur alltof langan tíma að afgreiða, og félagsmálaráðneytis/Vinnumálastofnunar sem sér um að hýsa og þjónusta fólk á meðan beðið er eftir afgreiðslu umsókna.

Það er engin ein einföld lausn til í þessum málum á meðan milljónir manna flýja stríðsátök og lífshættuleg skilyrði í sínum heimalöndum. Best væri auðvitað að komið yrði á friði og bættum lífsskilyrðum sem víðast í heiminum en alþjóðasamfélagið virðist ekki ráða við það mikilvæga verkefni. Fyrst svo er, og fólk heldur áfram að leita hælis m.a. á Íslandi, þyrftu fleiri sveitarfélög að sinna og taka á móti fólki og dreifingin að vera betri.