Nýjast á Local Suðurnes

Mikil fjölgun í tilkynningum til barnaverndar – Álag á starfsfólki langt yfir viðmiðunarmörkum

Farið var yfir niðurstöður álagsmælingar starfsmanna barnaverndar Reykjanesbæjar sem gerð var í mars 2021, á fundi barnaverndarnefndar sveitarfélagsins sem haldinn var á dögunum. Mikil aukning hefur verið á tilkynningum til barnaverndar og álag á starfsmönnum mælist áfram langt yfir viðmiðunarmörkum.

Heildarfjöldi barnaverndarmála í lok febrúar 2021 var 244 mál sem er töluverð aukning frá árinu 2020 en þá var fjöldinn 187 mál. Heildarfjöldi nýrra mála á árinu 2021 er 46 og fjöldi lokaðra mála á sama tíma er 31 auk eins máls sem flutt var til annarrar barnaverndarnefndar. Flestar tilkynningar komu frá lögreglu og úr skólakerfinu. Samkvæmt fundargerð ráðsins voru helstu ástæður tilkynninga grunur um vanrækslu – umsjón og eftirlit -neysla foreldra, tilfinningalegt ofbeldi – heimilisofbeldi og áhættuhegðun barns – neysla og barn beitir ofbeldi.