Nýjast á Local Suðurnes

Gríðarlegur vöxtur leigufélags – Sópuðu að sér íbúðum á Ásbrú og hækkuðu leigu

Efnahagsreikningur Heimavalla, stærsta leigufélags landsins fjórfaldaðist að stærð í fyrra vegna sameininga við smærri félög og jukust leigutekjur ríflega. Fyrirtækið keypti rúmlega 700 íbúðir af leigufélagi í eigu Kadeco, Ásabyggð, og um tæplega 100 íbúðir sem voru í eigu Tjarnarverks. Athygli vakti að félagið hækkaði leigu á Ásbrú töluvert um leið og kaupin á Ásabyggð voru gengin í gegn.

Vöxtur félagsins hefur vakið athygli, en eignir samstæðunnar jukust úr 10,4 milljörðum króna í 43,3 milljarða. Í ársbyrjun 2016 voru 445 leiguíbúðir í rekstri hjá félaginu en í lok ársins voru þær 1.714, langstærstur hluti stækkunarinnar er tilkominn vegna uppkaupa á íbúðum á Suðurnesjum. Frá þessu er greint í úttekt Viðskiptablaðsins á leigumarkaðnum, en þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins nam 2,2 milljörðum króna í fyrra.