Nýjast á Local Suðurnes

Gamla myndin: Þegar Njarðvíkingar voru bláir

það kemur ýmislegt í ljós þegar menn taka sig til og glugga í gömul myndaalbúm, það á við í þessu tilviki hvar þessi mynd dúkkaði upp, en hún virðist tekin í búningsklefa Njarðvíkur eftir körfuboltaleik.

Myndin, sem tekin er af Boga Þorsteinssyni, er líklega tekin á árinu 1973 eða jafnvel fyrr, en seint á því herrans ári skiptu Njarðvíkingar um lit og fóru úr bláu í grænt. Ýmsar sögur hafa gengið manna á millum um litaskipti Njarðvíkinga, meðal annars sú að forsvarsmenn liðsins hafi verið harðir aðdáendur Boston Celtics. Þó hafa einhverjir sagt að ástæðan sé einfaldlega sú að ekkert annað lið lék í grænum búningum á þessum árum.

Á myndinni má sjá þá Brynjar Sigmundsson, Kristbjörn Albertsson, Geir Þorsteinsson og líklega Gunnar Þorvarðarson, sem lék í búning númer 14 á þessum árum.