Nýjast á Local Suðurnes

Ragnheiður Sara keppir á sterku móti í Boston um helgina

Sextíu bestu crossfit íþróttamenn heims koma saman í Boston um helgina til keppni á “Kill Cliff East Coast Championships 2016” crossfit kepninni. Suðurnesjastúlkan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir verður á meðal keppenda á mótinu en hún hefur titil að verja þar sem hún sigraði á þessu móti á síðasta ári.

Það má búast við harðri keppni en eins og áður segir hafa flestir af þeim bestu skráð sig til leiks í mótinu, þar á meðal Katrín Tanja Davíðstóttir, sem sigraði á heimsleikunum í sumar og Annie Mist Þórisdóttir, margfaldur crossfit meistari.

Auglýsing: Umsóknarfresturinn er að renna út!

Keppnisdagarnir eru tveir, þar sem einstaklingar keppa fyrri daginn og liðakeppni fer fram þann síðari. Mótið hefst klukkan 11 að staðartíma þann 23. janúar í einstaklingskeppninni og í liðakeppninni klukkan 9 þann 24. janúar. Ragnheiður Sara keppir báða dagana, í liðakeppninni mætir hún til leiks ásamt Jordan Cook, Travis Williams og Kari Pearce, sem öll hafa staðið sig vel í íþróttinni.

Verðlaunin á mótinu eru ekki af verri endanum, tæpar 2.000.000 króna koma í hlut sigurvegarans í einstaklingskeppninni 0g rúmar þrjár milljónir króna eru í verðlaun fyrir sigurvegarana í liðakeppninni.

Finna má nánari upplýsingar um keppnistíma og -greinar á mótinu hér.