Nýjast á Local Suðurnes

Stefan Bonneau meiddur út tímabilið

Körfuknattleikslið Njarðvíkinga varð fyrir áfalli í vikunni þegar Stefan Bonneau meiddist alvarlega á æfingu. Bonneau verður frá keppni næsta hálfa árið. Njarðvíkingar skrifuðu undir samning við Bonneau um miðjan júní og ríkti mikil bjartsýni í herbúðum liðsins fyrir tímabilið þegar ljóst var að hann myndi snúa aftur til Njarðvíkur.

Í tilkynningu frá félaginu segir: „Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur þykir leitt að tilkynna að Stefan Bonneau mun ekki koma til með að leika með liði Njarðvíkur á tímabilinu sem nú er framundan.

Stefan Bonneau var við æfingar í vikunni og slasaðist illa á fæti, en um er að ræða slitna hásin að öllum líkindum að sögn lækna. Læknar telja hann frá í 6 mánuði að minnsta kosti

Hugur stjórnar er allur hjá Stefani á þessum erfiðu tímum, enda um gríðarlegt áfall að ræða. Tilhlökkunin var mikil hjá honum að spila í Njarðvík sem og hjá Njarðvíkingum yfir höfuð að fá að sjá hann spila, enda er hann leikmaður sem stimplaði sig rækilega inn í hjörtu allra Njarðvíkinga og körfuboltaáhugamanna á landsvísu  eftir frammistöðu sína á síðastliðnu tímabili.

Stjórn og þjálfarar eru í þessum skrifuðu orðum undir feldi hvað varðar ákvarðanartöku fyrir næstkomandi daga og tímabilið sem nú er framundan.

Það er ljóst að eftirsjáin er mikil eftir leikmanni eins og Stefani, en þeir sem fylgdust með honum sáu að hann er hvers manns hugljúfi innan sem utan vallar.

Stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar óskar honum skjóts bata og vonumst við til að sjá hann á nýjan leik í græna búningnum í ljónagryfjunni í nákominni framtíð.“