Nýjast á Local Suðurnes

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ munu leggja traust sitt á eftirlitsstofnanir

Íbúafundur vegna rafrænnar íbúakosningar sem fram fer á vef Þjóskrár, Island.is, frá 24. nóvember til 4. desember næstkomandi var haldinn í Stapa í gærkvöld. Um 70 manns mættu á fundinn og voru umræður líflegar. Í pallborði voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og tveir fulltrúar frá íbúum sem eru mótfallnir breytingu á deiliskipulagi í Helguvík.

Fundargestum var leyft að bera fram fyrirspurnir úr sal til aðila í pallborði. Allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar svöruðu því til að að þeir myndu ekki breyta afstöðu sinni væri vinna við uppbygginguna í Helguvík framar í samningaferlinu. Verið væri að skapa tækifæri á betur launaðri stöfum en nú bjóðast, bæjarfélaginu og íbúum til heilla. Það væri m.a. liður í að laða til bæjarfélagsins fleiri íbúa.

Bæjarfulltrúar bentu að auki á að íbúalýðræði gæti ekki verið afturvirkt og að sveitarstjórnarlög heimiluðu ekki að varpa málum til íbúa sem hefðu með fjármuni bæjarfélagins að gera og því væri niðurstaða kosninga ekki bindandi, líkt og ákvæði í lögunum kveði á um. Hins vegar voru bæjarfulltrúar jafnt sem íbúar sammála um að íbúafundur sem þessi væri nauðsynlegur svo öll sjónarmið kæmust upp á yfirborðið og draga mætti af honum lærdóm fyrir sambærilegt mál sem á eftir kynnu að koma.

Einnig kom fram á fundinum að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ munu leggja traust sitt á eftirlitsstofnanir til að tryggja að mengun stóriðjufyrirtækja í Helguvík fari ekki yfir leyfileg mörk. Þá kom fram á fundinum að ekki sé líklegt að álver muni rísa í Helguvík á næstu árum.