Nýjast á Local Suðurnes

Hagkvæmt að setja upp sjálfvirk landamærahlið í FLE

Heildarfjöldi farþega sem fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar jókst um 1.115.682 á árinu og þeim sem fóru um ytri landamærin fjölgaði um 32%. Þessi mikla fjölgun einkenndi störf flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Til að mæta kröfum hagsmunaðila um afgreiðsluhraða um landamærin og auka sveigjanleika voru landamæraverðir ráðnir til starfa. Einnig var unnin fýsileikakönnun fyrir sjálfvirk landamærahlið. ( e. Automatic Border Crossing ABC.) Unnið var markvisst að því bæta tölfræðisöfnun deildarinnar er varðar óreglulega fólksflutninga, segir í ársskýrslunni.

Fjöldi skjalafölsunarmála var alls 32 á árinu 2014 sem er talsverð fjölgun frá 2013, hins vegar nær þessi fjöldi ekki metárinu frá 2012 þegar 42 mál komu upp. Skilríkjasérfræðingar flugstöðvardeildar fengu til úrlausnar 40 skilríki til viðbótar framan greindu frá öðrum embættum og stofnunum. Í 24 tilfellum þar af snerust fyrirspurnirnar um skoðun skilríkja með tilliti til hugsanlegrar fölsunar og í tveimur tilvikum um andlitssamanburð sérstaklega.

Flestir einstaklingar sem framvísuðu fölsuðum skilríkjum, skilríkjum annars manns eða voru án skilríkja við komu til Keflavíkurflugvallar komu frá Osló og Stokkhólmi.

Sjálfvirk landamærahlið hagkvæm

Snemma árs 2014 var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til þess að greina hagkvæmni og skilvirkni sjálfvirkra landamærahliða (e. Automatic Border Control, ABC) með landamæravörslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að leiðarljósi. Vinnuhópinn skipa fulltrúar frá ISAVIA, Ríkislögreglustjóra og Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Á fyrsta fundi vinnuhópsins var ákveðið að sækja Frontex ráðstefnu á Gatwick – flugvelli í Bretlandi.

Einnig var farin vettvangsferð á flugvöllinn í Helsinki þar sem sjálfvirk landamærahlið voru skoðuð en Finnar eru komnir hvað lengst í innleiðingu á þessari tækni við landamæravörslu. Unnin var margvísleg rannsóknarvinna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er varðar afgreiðslutíma um landamærin sem síðan var sett upp í hermilíkan.

Niðurstaða af þessari vinnu varð sú að hagkvæmt er talið að setja upp allt að 10 sjálfvirk landamærahlið. Áfram verður unnið að þessu verkefni á næsta ári.