Nýjast á Local Suðurnes

Tugmilljónir í reiðufé haldlagðar í aðgerðum lögreglu

Tíu manns sitja um þessar mundir í gæsluvarðhaldi á vegum lögreglunnar á Suðurnesjum vegna fíkniefnamála. Um 60 milljónir króna í reiðufé hafa verið haldlagðar í aðgerðum tollgæslu og lögreglu.  Það er á pari við meðaltal ársins samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.

Lögregla sendi frá sér tilkynningu með tölfræði ársins, sem er svo borin saman við tölfræði síðasta árs. Samkvæmt því virðist vera aukning á flestum sviðum þegar kemur að brotum sem tengjast fíkniefnum.

Á síðasta ári rannsakaði lögreglan á Suðurnesjum 69 mál vegna smygls á fíkniefnum, peningaþvættis og flutningi á reiðufé úr landi.  Það sem af er þessu ári eru málin orðin 58. Í þessum málum voru sakborningar handteknir á Keflavíkurflugvelli við komu til landsins eða handteknir vegna gruns að vera með illa fengið fé á leið úr landi. 

Lagt hefur verið hald á 65 kg af kókaíni, 14.000 töflur af oxycontin, 1.800 töflur af contalgin, 100 kg af kannabis, amfetamínbasa og önnur efni sem bönnuð eru hér á landi.   Um 60 milljónir kr. í reiðufé hafa verið haldlagðar í aðgerðum tollgæslu og lögreglu. 

Tolleftirlit í komusal flugstöðvar hefur reynst árangursríkt.  Það er síðan í höndum lögreglu að rannsaka mál áfram og leiða í gegnum dómskerfið.   Þessu tengt þá sátu 80 menn í gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum árið 2022 í samtals 2.903 daga, eða að jafnaði 8 menn á dag, alla daga ársins.  Í ár er talan komin í 96, samtals 2.617 dagar, eða um 10  menn á dag það sem af er ári.  Í dag sitja 10 menn í gæsluvarðhaldi vegna innflutnings á fíkniefnum.