Nýjast á Local Suðurnes

Vill tryggja að öll börn fái í skóinn

Söfnunin Lítil hjörtu fer fram um þessi jól, en þetta er fjórða árið í röð sem Styrmir Barkarson, sem nú býr í Svíþjóð, stendur fyrir söfnuninni með dyggri aðstoð móður sinnar og velviljaðra bæjarbúa með það að markmiði að gleðja börn í efnalitlum fjölskyldum.

Styrmir sagði í samtali við Suðurnes.net að fyrsta árið sem söfnunin fór fram hafi safnast nægur peningur fyrir hundruðum skógjafa auk jólagjafa:

„Við söfnuðum um hálfri milljón króna fyrsta árið, sem dugði ekki aðeins fyrir hundruðum skógjafa, heldur var mögulegt að afhenda jólagjafir, jólanesti, jólaföndur og fleira fyrir öll börn í um 100 fjölskyldum sem leituðu til Velferðarsjóðs Suðurnesja auk jólagjafa fyrir öll börn sem dvöldu á vinajólum Hjálpræðishersins. Árin 2014 og 2015 safnaðist annað eins, en þá náðum við einnig að gleðja börn á páskum,“ sagði Styrmir.

Styrmir fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar fyrir um tveimur árum síðan, en er hvergi nærri hættur að hugsa til barna á Íslandi og heldur ótrauður áfram að gera sitt besta til að gleðja lítil hjörtu um jól og páska.

„Í ár er ég búinn að stofna samtök utan um söfnunina og sem fyrr er yfirbyggingin engin. Sjálfur er ég fluttur til Svíþjóðar en hjarta mitt slær enn fyrir börnin heima svo ég er hvergi nærri hættur og nýt aðstoðar móður minnar sem hefur verið á þönum í aðventunni að sækja og afhenda gjafir meðan ég fæ fólk til að leggja fé af mörkum. Aftur höfum við gefið um eitt hundrað börnum jólagjafir, bíómiða og glaðninga í skóinn. Vinajól Hjálpræðishersins eru handan við hornið og þau munu fá jólagjafir frá okkur fyrir þau börn sem verja aðfangadagskvöldi þar.

Almenningur hefur tekið vel í framtakið og við höfum til dæmis fengið framlög frá vinnustöðum og grunnskólabekkjum sem hafa sleppt jólagjöfum sín í milli til að gefa fé í söfnunina auk þess sem nýlega voru haldnir tónleikar í Keflavíkurkirkju þar sem hluti miðaverðs rann í sjóðinn.“ Sagði Styrmir.

Enn er hægt að leggja söfnuninni lið og er söfnunarreikningurinn sá sami og fyrri ár: 0542-14-405515 og kennitalan er 511116-1550.

Þá er um að gera að láta sér líka við Facebook-síðu samtakana Lítil hjörtu, en þar er hægt að fylgjast með gangi mála og nálgast allar nánari upplýsingar um samtökin.