Nýjast á Local Suðurnes

Fiskvinnslufyrirtæki sýknað af milljóna launakröfum

Fiskvinnslufyrirtækið AG-Seafood í Sandgerði var á dögunum sýknað, fyrir Héraððsdómi Reykjaness, af rúmlega 10 milljóna króna launakröfum bræðranna Hafsteins og Grétars Þorgeirssona. Bræðurnir stefndu fyrirtækinu vegna deilna um vangoldin laun í uppsagnarfresti, en þeir töldu að þeim hafi ekki verið sagt upp störfum á formlegan hátt heldur aðeins verið fjarlægðir af launaskrá fyrirtækisins.

Í málsmeðferð fyrir Heraðsdómi kom fram að málið hafi þó ekki verið þetta einfalt, heldur hafi það að hluta til snúist um kaup AG-Seafood á fiskiskipinu Farsæl GK 162 ásamt aflaheimildum, sem var í eigu þeirra bræðra, en félögin sameinuðust á árinu 2014 og urðu fiskiskipið og aflaheimildir þá eign AG-Seafood – Síðar kom upp ágreiningur um söluverð og þegar ekki hafi tekist að leysa úr ágreiningnum hafi bræðurnir gert kröfu á fyrirtækið vegna vangoldina launa.

Sem fyrr segir var AG-Seafood sýknað af kröfum bræðranna, en Héraðsdómur taldi þá hafa sýnt verulegt tómlæti þar sem þeir höfðu ekki uppi kröfur á hendur fyrirtækinu um vangoldin laun eða skaðabætur fyrr en um 19 mánuðum eftir að launagreiðslur til þeirra hættu að berast, eða eftir að ágreiningur reis milli málsaðila um sölurétt þegar skipið og aflaheimildir voru seld út úr rekstri AG-Seafood.

Bræðurnir, Hafsteinn og Grétar voru hvor um sig dæmdir til að greiða 600.000 króna málskostnað, vegna málaferlana sem voru umfangsmikil að mati Héraðsdóms.