Nýjast á Local Suðurnes

Ríkið tryggi nauðsynleg fjárframlög til heilbrigðisþjónustu og samgangna

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetur ríkisvaldið til þess að tryggja nauðsynleg fjárframlög til heilbrigðisþjónustu og samgangna á Suðurnesjum án tafar, en allir bæjarfulltrúar rituðu nafn sitt undir bókun þess efnis á fundi bæjarstjórnar í gær.

Bókunin er sett fram í kjölfar alvarlegs atviks á Keflavíkurflugvelli á dögunum þegar hjólabúnaður flugvélar gaf sig í lendingu og þess að óveður olli verulegum truflunum á samgöngum á sama tíma. Almannavarnir lögðu fram bókun um sama efni á fundi sínum í febrúar.

Bókunin í heild sinni:

“Á undanförnum mánuðum hafa komið upp atvik tengd flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem hjólabúnaður flugvélar gaf sig og óveður olli verulegum truflunum á samgöngum til og frá flugstöðinni. Atvikin beindu sjónum Almannavarna að getu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) til að sinna þjónustu í slíkum neyðartilvikum, sér í lagi ef illfært er um einfalda Reykjanesbraut á sama tíma. Mikil mildi þykir að ekki varð úr meiriháttar neyðarástand við þær aðstæður sem sköpuðust í umræddum tilvikum.

Í fundargerð sinni frá fundi 12. febrúar skorar stjórn Almannavarna á sveitarfélög og þingmenn svæðisins að krefjast þess strax að rekstrargrundvöllur HSS verði styrktur verulega og að lokið verði sem fyrst við tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið að flugstöð. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar deilir þungum áhyggjum stjórnar Almannavarna af ástandinu og hvetur ríkisvaldið til þess að tryggja nauðsynleg fjárframlög til heilbrigðisþjónustu og samgangna á Suðurnesjum án tafar.“