Nýjast á Local Suðurnes

Virkja ljósakerfið á Keflavíkurflugvelli til listsköpunar

Isavia hefur boðið listamanninum og sýningarstjóranum Kristínu Scheving að setja upp röð sýninga á alþjóðaflugvellinum í Keflavík þar sem ljósakerfið í aðalbyggingu flugstöðvarinnar er virkjað í samtali við vídeóverk í miðrými byggingarinnar.

 

Þeir sem sækja húsið heim eru inni í innsetningunni frá því þeir ganga upp á aðra hæðina og alla leið að verslunarsvæðinu. Kristín hefur í meira en áratug unnið að áþekkum verkefnum með vídeó og listrænni lýsingu í almenningsrýmum.

Sýningarnar eru tilraunaverkefni þar sem valdir íslenskir listamenn munu sýna verk sín út árið 2018. Í verkum þeirra birtast mismunandi möguleikar hreyfimynda sem eiga sérstaklega vel við það millibilsástand og einskismannsland sem segja má að alþjóðaflugvöllur sé. Gestum flugstöðvarinnar er veitt ný upplifun í gegnum tilraunir með ljós og vídeó.

Menningarlegt landslag nútímans er á margan hátt skilgreint af þeim myndum sem okkur eru sýndar á skjáum. Í margbreytilegu samhengi geta myndir á skjá rakið sig eftir minningum og vakið ímyndunaraflið, á sama hátt og jarðlög í landslaginu – það er á skjánum sem þetta allt fellur saman í eina sýnilega heild. Skjárinn er hins vegar sýndarfyrirbæri í sjálfum sér, og á honum væri ekkert að sjá ef ekki væri fyrir ljóseindir á ferð og flugi. Sýningarröðin víkkar út hugmyndir um lýsingu og rafræna miðlun mynda sem ættaðar eru úr listasöfnum. Hér eru þær settar inn í rými sem markast af neyslu, hreyfingu og ferðalögum, en með tilfærslunni er staða og tilvist áhorfandans endurskoðuð út frá þessum nýja reynsluheim.

Þrír íslenskir listamenn munu sýna verk sín frá febrúar til október 2018. Auk þess að sýna myndir af íslensku landslagi, fara þessi verk á milli ímyndunaraflsins og viðkvæmustu tilfinninga í marglaga hreyfingu frá yfirborðinu og inn að kjarnanum. Með því að láta ímyndunaraflið skrásetja skyntúlkunina eru verkin þanin milli tveggja heima, eða jafnvel þriggja, eins og sendiboðar sem fara milli hins ímyndaða heims, áþreifanlegs veruleikans, og tæknilegs ástands okkar tíma. Verkin búa til tengingu milli líkama og sálar þar sem tæknin er nýtt til að kalla fram margbreytileg skynáhrif.

Sigrún Harðardóttir er myndlistarmaður sem vinnur með mismunandi miðla, en tæknin er að jafnaði undirliggjandi stef í verkum hennar. Myndræn útfærsla á viðfangsefnum hennar hefur þróast frá aðallega tvívíðum miðlum yfir í flókin gagnvirk umhverfisverk. Sigrún stundaði framhaldsnám við sjónlistadeild Ríkisakademíunnar í Amsterdam. Hún er með MA-gráðu í margmiðlunarfræði, með áherslu á gagnvirkar innsetningar frá Quebec Háskólanum í Montreal (UQAM) og BFA-gráðu frá Listaháskóla Íslands. Sigrún er fædd árið 1954 og búsett í Reykjavík.

Ásdís Sif Gunnarsdóttir er þekkt fyrir gjörninga og vídeó-innsetningar sem oft eru sýndar í óhefðbundnum rýmum. Verkin spanna allt frá stærri vídeó-innsetningum og gjörningum, til ljóðalesturs og ljósmynda. Verkin eru bæði sett upp fyrir framan áhorfendur og eins í beinni útsendingu á internetinu, miðli sem hentar vel þeim tímabundnu og rýmistengdu víddum sem hún kannar í verkum sínum. Í gjörningum hennar koma oft fyrir ljóð sem geyma bæði veraldlegar og yfirnáttúrulegar tilvísanir. Ásdís er með BFA gráðu frá School of Visual Arts í New York og MA gráðu í nýlistum frá UCLA. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis, þar á meðal í Tate Gallery, Centre Pompidou, á kvikmyndahátíði í Róm og TBA 21. Ásdís er fædd árið 1976 og er nú um stundir búsett í Reykjavík.

Haraldur Karlsson hefur sérhæft sig í tilraunakenndri vídeólist síðastliðna tvo áratugi. Haraldur er með próf í fjöltækni frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og BA-próf í nýjum miðlum  frá AKI ArtEZ Academie voor Art & Industry í Enschede, Hollandi. Hann lærði hljóðhönnun við Royal Conservatory í Hague. Á árunum 1999–2009 vann Haraldur við Listaháskóla Íslands og var forstöðumaður og kennari í Tón- og vídeóveri. Haraldur hefur framið marga gjörninga og haldið fjölda sýninga og fyrirlestra bæði á Íslandi og erlendis. Haraldur er fæddur árið 1967 og er um þessar mundir búsettur í Ósló.

Kristín Scheving er listamaður og sýningarstjóri sem hefur í meira en áratug unnið að áþekkum verkefnum með vídeó og listrænni lýsingu í almenningsrýmum. Hún var stofnandi og framkvæmdastjóri tilraunakvikmynda- og myndbandahátíðarinnar 700IS Reindeerland í tíu ár (2006–2015), sem fól í sér að sýna listaverk í margvíslegum sýningarrýmum á almenningsstöðum, sem og að vinna með listamönnum að tilraunum með vídeó, hljóð og ljóðlist og gagnvirka list og frá 2013-2017 starfaði hún sem deildarstjóri Vasulka-stofu í Listasafni Íslands.

Sjá einnig: https://www.kefairport.is/English/About-us/Artwork/