Opna Boruna á morgnana fyrir heldri borgara
Frá og með föstudeginum 11. Febrúar verður Leikjaherbergi félagsmiðstöðvarinnar Borunnar í Vogum opnað á morgnana fyrir heldri borgara um leið og íþróttamiðstöðin.
Þannig gefst eldri heldri borgurum tækifæri á að spila borðtennis, pool, foosball og í framtíðinni bætast fleiri skemmtilegar íþróttir við, segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins. Þetta er viðbót við það starf sem komið er í gang. Í dag er hægt að mæta í sundleikfimi á mánudögum og fimmtudögum klukkan 09:00 og svo er boccia á fimmtudögum klukkan 14:30. Í Álfagerði er svo boðið upp á stólaleikfimi á mánudögum og fimmtudögum klukkan 13:00.
Þeir sem taka þátt í þessu þurfa að bera grímur ef að ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð. Einnig þarf að sótthreinsa allan búnað eftir hvern einstakling.
Mikilvægt er að allir vinni saman að því að halda heilsuræktarstöðum opnum með því að fara eftir reglum og passa upp á náungann og okkur sjálf, segir einnig í tilkynningunni.