Nýjast á Local Suðurnes

Rotta drepin í vél Icelandair – Vélin tekin úr umferð í rúma viku

Tilraunir til að handsama rottu sem hafði laumast um borð í eina af flugvélum Icelandair báru loks árangur þegar flugvirki frá félaginu náði að drepa rottuna, sem hafði hafst við um borð í flugvélinni í um viku tíma. Samkvæmt fréttum á DV og Rúv höfðu ýmsar leiðir verið reyndar til að ná dýrinu sem ekki báru árangur.

DV sagði frá málinu í síðustu viku.  Þar var haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa  Icelandair, að þetta væri líklega hamstur eða annað lítið nagdýr sem sennilega hefði komist um borð á flugvelli erlendis. Þá hafði dýrið enn ekki náðst og margt á huldu um eðli vágestsins.

Guðjón Arngrímsson segir að það gerist endrum og sinnum að meindýr komist um borð í flugvélar en starfsmenn Icelandair reki ekki minni til þess að rotta hafi áður komist um borð í vélar félagsins. Hann vill ekki nefna hvert mögulegt tjón geti verið, en ljóst er að það er umtalsvert þar sem vélin var tekin úr umferð í um eina viku.