Nýjast á Local Suðurnes

Börn og ungmenni geta tilkynnt til barnaverndar

Reykjanesbæ hefur mótað leiðir fyrir börn og ungmenni til að koma sínum skoðunum á framfæri með því að koma tilkynningarhnapp barnaverndar fyrir í spjaldtölvum grunnskóla sveitarfélagsins. Með honum geta börn og ungmenni að eigin frumkvæði og án milligöngu fullorðinna tilkynnt til barnaverndar telji þau sig eða einhvern annan vera í hættu.

Þá hefur verið innleidd aðgengilegri ábendingagátt hjá sveitarfélaginu sem auðveldar öllum, þar með talin börnum og ungmennum að senda inn ábendingu.

Allar ábendingar sem berast fara í formlegt ferli innan stjórnsýslunnar samkvæmt útgefnum verklagsreglum skjaladeildar og barnaverndar Reykjanesbæjar, segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.

Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags og Halldóra Mjöll Ingiþórsdóttir fulltrúi ungmennaráðs Reykjanesbæjar kynntu tilkynningarhnappinn fyrir nemendum í Heiðarskóla og voru veggspjöld formlega afhent skólanum en allir grunnskólar munu fá eintök til þess að hengja upp á veggi innan skólanna. Einnig munu nemendur fá fræðslu í skólunum um Barnasáttmálann og tilkynningarhnappinn.

Mynd: Reykjanesbær