Nýjast á Local Suðurnes

Vilja halda bótum og vinna svart

Erfitt virðist vera fyrir atvinnurekendur á Suðurnesjum að fá fólk til starfa, þrátt fyrir að atvinnuleysistölur séu í hæstu hæðum á svæðinu um þessar mundir. Í samtölum sudurnes.net við nokkra atvinnurekendur í fiskvinnslu, léttum iðnaði og verktöku kemur fram að fólk virðist frekar vilja vera á atvinnuleysisbótum eða framfærslu sveitarfélaga en að vinna umrædd störf.

“Við höfum reynt að fá fólk til starfa undanfarnar vikur, nánast án árangurs, þeir sem þó hafa komið til okkar hafa stoppað stutt. Nokkra daga.” Segir einn viðmælanda sudurnes.net. Hann segir einnig að nokkrir einstaklingar sem hafi þó mætt í atvinnuviðtöl hafi óskað eftir því að fá að vinna svart og halda þannig atvinnuleysisbótum.

Aðrir sem rætt var við höfðu nánast sömu sögu að segja, afar erfitt væri að fá fólk sem þiggur bætur til vinnu. Fiskverkandi sem blaðamaður ræddi við sagði að það stefndi í að hann þyrfti að fara að flytja inn starfsfólk.

Ástandið virðist öllu betra í bygginga- og verktakabransanum, en þeir sem blaðamaður ræddi við sögðust vera ágætlega mannaðir í augnablikinu, en tóku þó fram að erfitt væri að fá fólk í þau störf sem lægst eru launuð.

Allir sem blaðamaður ræddi við sögðu að samskipti við Vinnumálastofnun væru erfið, ekki væri hægt að komast á skrifstofu stofnunarinnar eftir að aðgengi var takmarkað vegna faraldurs kórónuveirunnar, nánast ómögulegt væri að ná sambandi í gegnum síma og að löng bið væri eftir svörum í tölvupósti.