Nýjast á Local Suðurnes

Allt að smella hjá Reykjanesbæ

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Þjónusta og starfsemi Reykjanesbæjar er óðum að komast í samt horf eftir heitavatnsleysið á dögunum og gert er ráð fyrir að lítil sem engin skerðing verði á starfsemi sveitarfélagsins á morgun, fimmtudag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins, en þar segir að þó verði ekki hægt að opna sundlaugina í Heiðarskóla fyrr en á fimmtudaginn og einhver smá óvissa með B-salinn í íþróttahúsinu við Sunnubraut.

Þá kemur fram að skólastarf hafi gengið vel á flestum stöðum í gær. Í tveimur skólum sló rafmagn út um tíma en HS veitur sinntu neyðarviðbragði fljótt og vel. Þá þurftu einhverjar bekkjaeiningar að fara fyrr heim þar sem ekki náðist nægur hiti á stofur.

Í tilkynningunni ítrekar Reykjanesbær þakkir til starfsfólks, íbúa, fyrirtækja á svæðinu, HS veitna, HS orku, Almannavarna, Embætti Ríkislögreglustjóra, umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum, Brunavarna Suðurnesja auk fjölmargra annarra viðbragðsaðila sem stóðu vaktina.