Listahátíð barna stendur til 21. maí – Sjáðu dagskránna!
Allir leikskólarnir tíu, grunnskólarnir sex, Tónlistarskólinn, dansskólarnir í Reykjanesbæ og listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja taka þátt í Listahátíð barna, sem stendur til 21. maí. Þetta er í 12. skipti sem hátíðin er haldin.
Dýrin mín stór og smá er yfirskrift hátíðarinnar í ár og fengu þátttakendur frjálsar hendur með þemað. Hugarflugi barnanna eru greinilega engar skorður settar og fjölbreytileiki dýranna eftir því. Leikskólabörn sýna í listasafni Reykjanesbæjar. Nemendur úr 4. bekkjum grunnskólanna fengu það verkefni að búa til fugla fyrir hátíðina og eru þeir sýndir í Gryfjunni. Þar hefur sköpunargleðin einnig verið óþrjótandi. Nemendur listnámsbrautar sýna svo í Stofunni í Bryggjuhúsi. Þó þau séu ekki beinlínis börn lengur „byggja þeir án efa listsköpun sína á því veganesti sem þeir hlutu á fyrri skólastigum um leið og verk þeirra geta orðið yngri nemendum innblástur,“ eins og segir í sýningarskrá.
Sýningarnar standa til 21. maí og er opið alla daga kl. 12 – 17 í Duus Safnahúsum.
Hér má nálgast dagskrá Listahátíðar barna í heild sinni.