Nýjast á Local Suðurnes

Álag á björgunarsveit ástæða brennuleysis

Í kjölfar fréttar um þá ákvörðun Grindavíkurbæjar að halda ekki áramótabrennu í ár spunnust umræður á samfélagsmiðlum hvar ákvörðun nefndarinnar var gagnrýnd. Af þeim sökum hefur sveitarfélagið sent frá sér tilkynningu þar sem skýrt er betur frá málavöxtum.

Undanfarin ár hefur Björgunarsveitin Þorbjörn séð um brennuna fyrir hönd sveitarfélagsins og var brennan eitt af þeim verkefnum sem sveitin sinnti samkvæmt samningi við Grindavíkurbæ. Þegar samningur við sveitina var endurnýjaður fyrir um ári síðan óskaði sveitin eftir því að þetta verkefni yrði ekki hluti af nýjum samningi.

Sjálfboðaliðar í björgunarsveitinni eru undir miklu álagi í kringum áramót og erfitt þótti að bæta þeirri miklu vinnu sem fylgir utanumhaldi um áramótabrennu ofan á þeirra sjálfboðaliðastörf.

Meðal þeirra verkefna sem sjálfboðaliðarnir hafa sinnt er að safna eldivið, leigja tæki, hlaða bálköst, tendra í brennunni, vakta brennuna til morguns, o.fl. Þá er erfitt fyrir sveitina að treysta alfarið á lánstæki frá einkaaðilum.

Rétt er að taka fram að kostnaður Grindavíkurbæjar vegna áramótabrennu undanfarin ár hefur verið 850.000 kr. Frístunda- og menningarsvið Grindavíkurbæjar hefur tekið þátt í, komið að skipulagningu eða skipulagt sex opna viðburði í tengslum við yfirstandandi jól og áramót, þ.e. Fjörugur föstudagur, tendrun á jólatré, jólasýning með Langleggi og Skjóðu, Jólaball Grindavíkur, útnefning á íþróttafólki Grindavíkur og þrettándagleði. Til samanburðar er kostnaður vegna þessara viðburða áætlaður samtals 850.000 kr.