Mannbjörg þegar sementsflutningaskip strandaði í Helguvík
Sementsflutningaskipið Fjordvik strandaði í nótt við innsiglinguna í Helguvíkurhöfn, en slæmt veður var og vont í sjóinn. Áhöfn skipsins ásamt hafnsögumanni, alls 15 manns, var bjargað um borð í tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar.
Tilkynning um strandið barst laust fyrir klukkan eitt í nótt og voru allar björgunarsveitir á Suðurnesjum kallaðar út ásamt sveitum af höfuðborgarsvæðinu.
Skipið var að koma með sementsfarm frá Álaborg í Danmörku þegar það strandaði. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV hafa sérfræðingar Umhverfisstofnunar farið á strandstað til að kanna aðstæður, en olía hefur lekið úr skipinu.