Varað við innbrotsþjófum á Ásbrú – Hlutum stolið við hlið sofandi barns
Íbúi á Ásbrú varar aðra íbúa á svæðinu við kræfum innbrotsþjófum og brýnir fyrir fólki að passa upp á að hafa svalahurðir læstar í íbúðum sínum í færslu sem birt er í lokuðum Facebook-hópi íbúa í hverfinu. Maðurinn greinir þar frá atviki sem átti sér stað á heimili hans þar sem farið var inn um svalahurð sem var ólæst og hlutum stolið á meðan ungt barn hans svaf á sófa í herberginu.
Fjölmargir taka undir orð mannsins í ummælum við færsluna og segjast hafa lent í svipuðum atvikum, en einnig var varað við svipuðum atvikum í sumar. Þá biðlar fólk í umræðunum til nágranna að vera á verði og tilkynna til lögreglu ef fólk verður var við grunsamlegar mannaferðir við íbúðir í hverfinu.