Nýjast á Local Suðurnes

Landsbankinn, Nettó og HS Orka helstu styrktaraðilar Ljósanætur

Blöðrum verður ekki sleppt við setningarathöfnina að þessu sinni

„Það þarf fólk eins og þig“ söng Rúnar Júlíusson í vinsælu lagi og segja má að þessi lína gæti verið einkennislína Ljósanætur árið 2015.  Ljósanótt er ein af stærri bæjarhátíðum landsins og fer nú fram í 16. sinn dagana 2.- 6. september n.k.

Í sumar var sent út bréf til fjölda fyrirtækja á svæðinu og leitað eftir fjárhagslegum stuðningi við framkvæmd hátíðarinnar og í morgun kl. 11.00 skrifaði bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson undir samninga við þrjá stærstu styrktaraðilana sem eru Landsbankinn sem er helsti styrktaraðili Ljósanætur,  Nettó sem styrkir vel dagskrá föstudagsins og barnadagskrána og HS Orka sem lýsir upp Ljósanótt með því að fjármagna flugeldasýninguna.

rnb ljosanott styrkir

Neðri röð frá vinstri: Hallur Geir Heiðarsson rekstrarstjóri Nettó og Kaskó, Jóhann Snorri Sigurbergsson forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku, Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans í Keflavík og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri. Efri röð: Hluti framkvæmdastjórnar Ljósanætur.

 

Bæjarstjóri þakkaði fulltrúum þessara þriggja fyrirtækja sitt framlag og jafnframt hvatti hann þau fyrirtæki sem enn hafa ekki svarað bréfinu, að senda nú inn sem fyrst,  jákvæð svör og taka þannig þátt í að halda Ljósanótt sem einni bestu menningar- og fjölskylduhátíð landsins.